Um Grenivík


Þorp tók að myndast á Grenivík við austanverðan Eyjafjörð upp úr aldamótunum 1900 en fram að þeim tíma hafði fyrst og fremst verið þar stundaður landbúnaður auk þess sem róið var til fiskjar á litlum, opnum bátum. Grenivík er hluti af sveitarfélaginu Grýtubakkahreppi þar sem í það heila búa um 350 manns (2014), þar af um 270 á Grenivík.

Uppbygging hafnarmannvirkja á síðari hluta 20. aldar virkaði sem vítamínsprauta á athafnalíf á Grenivík. Í kjölfarið var byggt þar frystihús á vegum Kaldbaks hf. og æ síðan hefur útgerð og fiskvinnsla verið burðarásinn í atvinnulífi staðarins. En einnig eru nokkur önnur fyrirtæki tengd sjávarsíðunni og þá hefur nýsköpunarfyrirtæki í heilsuvörum skotið rótum. Á Grenivík er öll grunnþjónusta eins og grunn- og leikskóli, dvalarheimili aldraðra, sundlaug, íþróttaaðstaða, verslun og bankaþjónusta. Heilsugæsluþjónustu er sinnt frá Akureyri.

Í dreifbýlinu er stundaður búskapur af ýmsum toga – mjólkurframleiðsla, sauðfjárbúskapur, karftöflurækt og ferðaþjónusta sem hefur sótt í sig veðrið á undanförnum árum samhliða auknum ferðamannastraumi til landsins. Raunar gera íbúar í Grýtubakkahreppi töluvert út á ævintýraferðir með fólk, jafnt á vetrum sem yfir sumarið, á hið 1173 metra háa fjall Kaldbak, sem má kalla útvörð Eyjafjarðar í austri, auk gönguferða út í Fjörður og á Flateyjardal.


Höfnin á Grenivík


Bryggjukantar 143m. Mesta dýpi við kant 5m á 80m kafla. Smábátahöfn.

Hafnarvog:  þjónustusími 891-6288
Hafnarvörður: Sigurður Baldur Þorsteinsson