Grímsey er um 41 km norður af norðurströnd Íslands og sker norðurheimskautsbaugurinn hana þvera. Eyjan er 5,3 ferkílómetrar að flatarmáli, 5,5 km að lengd og 2 km á breidd þar sem hún er breiðust. Byggðin er meðfram suðvesturströnd eyjarinnar. Þar er landið aflíðandi í sjó fram en hækkar síðan jafnt og þétt til norðausturs þar sem þverhnípt bjargið er rúmir hundrað metrar þar sem það er hæst.
Líklegt er talið að byggð hafi verið í Grímsey í um þúsund ár og var eyjan jafnan talin matarkista vegna hins gjöfula lífríkis sem þar er að finna, gjöfulla fiskimiða við eyna, fuglaveiða og eggjatöku.
Íbúafjöldi í Grímsey hefur verið mjög breytilegur í gegnum tíðina. Á 20. öld urðu íbúarnir flestir um 1930 eða 125. Nú hafa innan við hundrað manns búsetu í eynni. Lengst af var Grímsey sjálfstætt sveitarfélag en frá árinu 2009 hefur eyjan verið hluti af Akureyrarkaupstað.
Grímseyingar byggja afkomu sína fyrst og fremst á sjósón og fiskverkun. Á öldum áður var landbúnaður einnig stundaður til heimilisnota og svo er enn að litlu leyti því þar eru bæði kindur og hestar en kúabúskapur hefur ekki lengi verið stundaður í eynni.
Þjónusta við ferðamenn er vaxandi þáttur í Grímsey, einkum yfir sumarmánuðina. Verslun er í eynni, gistiheimili og veitingaþjónusta, sundlaug, félagsheimili og tjaldsvæði.
Fastar flugferðir eru til Grímseyjar frá Akureyri og föst áætlun ferju frá Dalvík.
Bryggjukantar 200m, mesta dýpi við kant 7m á 100m kafla. Dýpi í innsiglingu 5m. Ytri höfn 100m kantur, rautt blikkandi ljós á enda hafnargarðs. Innri höfn fyrir smábáta, tvær bryggjur, 40m og 60m kantar, flotbryggja 17m. Krókavog í krana í innri og ytri höfn.
Hafnarvog: Sími 898-2058