Reglugerð um breytingu á hafnarreglugerð nr. 287/2005 fyrir Hafnasamlag Norðurlands bs., 1. gr.

 „Öll skip lengri en 100 m, að undanteknum innlendum fiskiskipum, skulu taka hafnsögumann um borð við siglingu inn í, út úr eða um hafnarsvæði Hafnasamlags Norðurlands, nema atvik eigi við samkvæmt 3. mgr.

Sérhvert skip, sem er á leið til hafnar innan Hafnasamlags Norðurlands og óskar eftir hafnsögu, skal gera boð um það til hafnsögumanns með minnst 3ja klst. fyrirvara. Er hafnsögumanni skylt að fara til móts við skipið allt að 3 sjómílum undan mörkum viðkomandi hafnar, ef skipstjóri æskir þess. Hafnsögumaður vísar skipinu leið til hafnar og má eigi yfirgefa það án samþykkis skipstjóra, fyrr en skipið er komið í viðlegu. Heimilt er hafnsögumanni meðan hann hefur ekki lokið starfi sínu að banna hverjum þeim sem ekki á lögmætt erindi að koma á skipsfjöl. Meðan hafnsögumaður dvelur um borð ber skipinu að sjá honum fyrir fæði. Hafnasamlagið veitir, eftir atvikum, aðstoð dráttarbáta, sér um bindingu skipa, sölu og afgreiðslu vatns og rafmagns. Hafnsögumaður ákveður notkun báta og mannafla eftir aðstæðum hverju sinni. Dráttarbátar hafnasamlagsins eru í þjónustu og á ábyrgð þess skips, er þeir aðstoða, frá því þeir taka við taug, eða fyrirmælum stjórnanda skipsins, er aðstoðar nýtur, og þar til taug er sleppt eða fyrirmæli gefin um að aðstoð sé lokið. Hafnsögumaður/skipstjórnarmaður skal vera í skipi, er það nýtur aðstoðar dráttarbáts.

Hafnarstjóra er heimilt að veita skipstjóra skips sem skal lúta hafnsögu skv. þessari grein, undanþágu frá hafnsögu. Skilyrði undanþágu er að skipstjóri hafi siglt viðkomandi eða sambærilegu skipi reglulega til hafnarinnar og ekkert verið athugavert við þær siglingar. Undanþágan gildir einungis til siglinga á það eða þau hafnarsvæði, sem viðkomandi hefur reglulega komið á. Nú hefur skipstjóri ekki gegnt skipstjórnarstörfum í 2 ár og fellur undanþágan þá niður. Undanþága frá hafnsögu skuldbindur viðkomandi skipstjóra til að hafa náið talstöðvarsamband við hafnsögumenn og hlíta í einu og öllu fyrirmælum þeirra, ella má svipta þá undanþágunni fyrirvaralaust.

Hafnarstjóri getur veitt undanþágu frá hafnsöguskyldu ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.“

Hjá Hafnasamlagi Norðurlands eru tveir hafnsögumenn, Bjarki Hreinsson og Vignir Traustason.

Yfirhafsögumaður er Jóhannes Antonsson.

Hafnsögupunktur er 65°43‘N 18°07‘W.