Um Hjalteyri


Á Hjalteyri, sem er húsaþyrping við vestanverðan Eyjafjörð, búa nokkrir tugir manna. Hjalteyri er hluti af sveitarfélaginu Hörgársveit þar sem um 560 manns hafa búsetu (2014). Á Hjalteyri er ágæt höfn fyrir minni báta en á síðustu öld voru hafnarmannvirkin meiri að umfangi þegar síldarskipin komu drekkhlaðin til löndunar. Þetta var á þeim árum þegar Hjalteyri var ein af mikilvægustu uppsprettum verðmætasköpunar fyrir íslenskt samfélag.

Áður en hið eiginlega síldarævintýri hófst á Hjalteyri á 20. öld höfðu útlendingar stundað þar útgerð og landvinnslu. Þannig hófu Norðmenn síldarsöltun á Hjalteyri upp úr 1880, árið 1905 gerðu bæði Svíar og Skotar þar út og um tíma gerðu Þjóðverjum út 10 skip til þorsk- og síldveiða.  Fyrir kom að síldin var veidd í landnætur frá sjávarkambinum vegna þess hve aðdýpi er mikið.

Nýr kafli var skrifaður í sögu Hjalteyrar þegar Kveldúlfur hf., fyrirtæki Thors Jensens, haslaði sér þar völl á fyrstu árum 20. aldar.  Á millistríðsárunum byggði fyrirtækið á þeim tíma stærstu síldarverksmiðju í Evrópu á Hjalteyri og var hún starfrækt til 1966 þegar síldin hvarf. Einnig lét Kveldúlfur reisa þar fjölmörg íbúðarhús.

Eftir standa mörg af gömlu verksmiðjuhúsunum á Hjalteyri og hafa þau að hluta verið nýtt í gegnum tíðina til margskonar atvinnusköpunar. Til dæmis var þar til skamms tíma lagmetisiðnaður, skreiðarverkun, hausaþurrkun og lúðueldi.

Borað var eftir heitu vatni með góðum árangri skammt frá Hjalteyri árið 2002 og styrkti heita vatnið  búsetu á staðnum.

Eins og annars staðar á landinu hafa verið tekin skref í ferðaþjónustu á Hjalteyri í bæði gistingu og veitingaþjónustu sem og köfun og sömuleiðis hafa listamenn unnið að listsköpun og sýnt afrakstur vinnu sinnar í gömlu verksmiðjuhúsunum.


Höfnin á Hjalteyri


Bryggjukantur 60m, mesta dýpi við kant, 4m (að utan), 3m (að innan). Smábátahöfn.