Um Hrísey


Hrísey rís úr sjó á miðjum Eyjafirði, 11,5 ferkílómetrar að flatarmáli, um 7 km að lengd og um 2,5 km þar sem hún er breiðust. Hún er önnur stærsta eyjan við Ísland, næst á eftir Heimaey. Hæst er Hrísey að norðanverðu, um 110 m yfir sjó þar sem vitinn stendur, en hallar til suðurs í átt að þorpinu.

Narfi Þrándarson er sagður hafa numið land í Hrísey og er ekki annað vitað en að samfelld byggð hafi verið í eynni allar götur síðan. Hrísey heyrði lengst af undir Árskógshrepp en varð sérstakt hreppsfélag árið 1930. Frá árinu 2004 herfur Hrísey tilheyrt Akureyrarkaupstað.

Á annað hundrað manns hefur fasta búsetu í Hrísey árið um kring en yfir sumarið dvelja mun fleiri í eynni sökum þess að fjölmörg hús þar eru í eigu fólks sem býr á fastalandinu.

Til Hríseyjar gengur ferjan Sævar oft á dag, árið um kring, frá Árskógssandi, sem er um 35 km norðan Akureyrar. Sigling milli lands og eyjar tekur um fimmtán mínútur.

Sjávarútvegur hefur lengst af verið burðarás atvinnulífs í Hrísey en hlutur hans hefur minnkað á síðustu árum en að sama skapi hefur ferðaþjónusta og önnur atvinnustarfsemi aukist í eynni. Fyrir gesti er einstaklega skemmtilegt að fara í gönguferðir um eyna og kynna sér áhugaverða sögu hennar, skella sér í sund eða skoða hús Hákarla-Jörundar, elsta hús Hríseyjar , sem kennt er við Jörund Jónsson og byggt úr timbri norskra skipa sem fórust við Hrísey í fárviðri í september 1884. Húsið hefur verið gert upp og hýsir sýningu um hákarlaveiðar við Ísland fyrr á öldum.


Höfnin í Hrísey


Bryggjukantar 272m, mesta dýpi við kant 5m á 58m kafla. Smábátahöfn. Ferjan Sævar til Árskógssands og Sæfari til Grímseyjar og Dalvíkur, sími 853-2211.

Hafnarvog: Þjónustusími 695-1968
Hafnarvörður: Kristinn Frímann Árnason