Svalbarðseyri er þéttbýliskjarni við austanverðan Eyjafjörð, hluti af sveitarfélaginu Svalbarðsstrandarhreppi, í landi kirkjujarðarinnar og hins forna höfuðbóls Svalbarðs. Árið 2014 voru 266 íbúar á Svalbarðseyri en 387 í öllu sveitarfélaginu. Svalbarðsstrandarhreppur vísar til samnefnds landsvæðis undir hlíðum Vaðlaheiðar, gegnt Akureyri, og eru norðurmörk sveitarfélagsins við Víkurskarð. Sveitarfélagið er um 14 km frá norðri til suðurs. Undirlendi er lítið syðst þar sem hjallar setja sterkan svip á landslagið en eykst talsvert þegar utar dregur. Landnámsjörð Svalbarðsstrandar er Sigluvík þar sem Skagi Skoftason nam land að ráði Helga magra sem hafði þá numið Eyjafjörð.
Á árum áður var stunduð töluverð útgerð frá Svalbarðseyri og síldarsöltun var þar um tíma. Nú er hverfandi sjósókn frá Svalbarðseyri.
Umtalsverð umsvif voru á Svalbarðseyri á þeim tíma er Kaupfélag Svalbarðseyrar var þar með rekstur. Kjötvinnslufyrirtækið Kjarnafæði er nú með allan sinn rekstur á Svalbarðseyri og þar er einnig grunn- og leikskóli, íþróttaaðstaða, sundlaug og skrifstofa sveitarfélagsins.
Ferðaþjónusta hefur á síðustu árum sótt í sig veðrið á Svalbarðseyri og í öllu sveitarfélaginu með m.a. rekstri gistihúsa og hótela. Þá er í sveitarfélaginu, við þjóðveg 1, skammt frá Svalbarðseyri, Safnasafnið, eitt yfirgripsmesta safn um alþýðulist á Íslandi.
Höfnin er mjög lítið notuð.